Sandari kjörinn Vestlendingur ársins 2007

Páll Stefánsson var kjörinn Vestlendingur ársins 2007.   Það er alltaf gleðilegt þegar einstaklingar eru heiðraðir fyrir störf þeirra í þágu samfélagsins.  Ég þekki Pál vel frá fornu fari, hef bæði unnið með honum til sjós og þekki hann persónulega af góðu einu.  Páll er einn þessara manna sem hafa ekki hátt um eigin getu eða gengur um og hælist af störfum sínum í þágu samfélagsins, heldu kýs að vinna sín störf í sátt við guð og menn.  Það er mér því sérstakt gleðiefni að samborgarar hans hafi séð ástæðu til þess að tilnefna hann sem einn þeirra sem ættu þann heiður skilið að verða á endanum útnefndur sem Vestlendingur ársins og að hann skuli hafa hlotið þann heiður að lokum.  

Ég þykist vita að Palla hafi ekki verið það mikið í mun að hljóta þennan titil og að honum hafi verið nóg viðurkenning það þakklæti sem hann og hans menn hafa hlotið frá þeim sem þeir hafa bjargað úr háska.  Ég þykist líka vita að Páll tileinki þessa viðurkenningu í hljóði, áhöfn sinni á hverjum tíma og öllu slysavarnarfólki sem fórnar tíma sínum og á stundum lífi og limum til að hjálpa samborgurum sínum.  Í Páli felst samnefnari alls þess fólks sem í hógværð gengur til slíkra starfa frá degi til dags, vitandi aldrei hvað nýr dagur ber í skauti sér.

Til hamingju Palli og Sandarar allir.

Haukur Már 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband